Laxá í Leirársveit opnaði í gær og þrátt fyrir að vatnsstaðan í ánni væri nokkuð há var nokkuð líf í ánni.
Vegna mikilla snjóalaga hafa verið töluverðar leysingar í hlýindum síðustu daga og það á varla eftir að breytast mikið núna þegar bæði hlýnar og rignir. Það góða við vatnsstöðuna er að laxinn verður fljótur að fara upp ánna og dreifa sér en neikvæða hliðin er að mikið vatn slær út nokkra veiðistaði. Allir laxarnir sem komu á land veiddust í Laxfossi en auk þess sluppu nokkrir af á öðrum stöðum. Flestir af löxunum sem náðust voru grálúsugir.